|
Hugmyndafræði og skipulag í Reggio Hér verður unnið að kennsluefni um Reggio Emilia starfsaðferðina á Ítalíu. Bók Guðrúnar Öldu Harðardóttur Í leikskóla lífsins er notuð til að vinna efnið, en síðan verða krækju í ítarefni um málið. Leikskólinn Leikskólinn setur sér þau markmið í skólanámskrá að vinna með:
Við vinnum samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla, en höfum einnig valið að vinna „rannsakandi leikskólastarf“ í anda þess starfs sem kennt er við bæinn Reggio Emilia á Norður-Ítalíu. Guðrún Alda segir það „nútíma leikskólafræði“ og á þar við að kennarar fylgjast með nýjustu rannsóknum um nám barna og nota hugmyndir þaðan í starfið - þetta er opið starf - ekki lokuð stefna. Hér er tenging í lausnarleitarnám, er það ekki óáþekkt könnunarnámi? Uppeldisstefnur eru til frá ýmsum tímum. Leikskólakennarar verða að taka afstöðu og velja sína eigin leið. Lífsgildin og reynslan litar afstöðu hvers og eins, ég sem leikskólakennari þarf að kynna mér hvað til er, leita innblásturs úr ýmsum áttum og byggja svo styrkan grunn að leikskólastarfi. Hugmyndafræði, uppeldisstefnur eða vinnubrögð er aldrei hægt að nota „hrátt“. Leikskólakennarar þurfa að nota sín lífsgildi, land, sveitafélag, nemendur, foreldra og starfsfólk til að móta leikskólastarfið. Átakspunktur leikskólastarfs er að tengja fræði og framkvæmd. Reggiostarfið er ekki kenning eða uppeldisstefna það er leikskólastarf að mati Guðrúna Öldu. Það hefur verið í þróun í 58 ár og er enn í hraðri þróun. Skipulag leikskólanna í Reggio er að börnin eru yfirleitt 75, deildarnar 3 og aldurshreinar. Tveir kennarar og stundum einn aðstoðarmaður. Kennarar vinna í pörum, tveir saman og eru með sama hópinn í þrjú ár. Hópurinn skiptir árlega um umhverfi. Þegar verið er að vinna að ákveðnu verkefni er mælt með fimm barna hóp, hinn kennarinn sinnir stóra hópnum á meðan. Allir kennarar halda fund einu sinni í viku og ræða starfið daglega yfir hádegismatnum. Vinnuvikan er 36 stundir, 30 tímar með börnunum, 4,5 tímar í fundi og 1,5 í skráningar og túlkanir. Umhverfið er kennari í Reggioleikskólunum. Þar er talað um að kennararnir séu: börn - kennarar - umhverfi. Umhverfið verður að vera sveigjanlegt og meðfærilegt til að þjóna tilgangi sínum. Kennarar vilja hafa gott rými, það er hvetjandi fyrir sköpunargáfu og samskipti barnanna. Ekki má þó alhæfa um umhverfismyndina þannig að hún eigi að gilda um öll samfélög. Eðlilegt er að menning og umhverfi hvers skóla birtist innan veggja skólans. Malaguzzi kom að mótun starfsins í Reggio leikskólunum þegar hann hreyfst af framtakssemi þeirra kvenna sem hrintu hugmyndum sínum um leikskóla í framkvæmd. Hann gagnrýndi ríkjandi skólakerfi eins og Dewey hafði gert. Malaguzzi taldi skólann og menninguna leitast við að skilja að líkama og huga. Hann taldi að hið innra og ytra væri gert að andstæðum. Hann átaldi vestræna menningu og skóla fyrir að afneita líkama og tilfinningum barnanna og upphefja kerfishugsun, rökhyggju og talað mál. Eins og sagt var í upphafi á ekki að taka „hrátt“ upp eftir öðrum. Eigið umhverfi litar alltaf, starfið þarf að aðlaga ríkjandi aðstæðum. Ef maður líkir eftir einhverjum verður það aldrei annað en afrit. Malaguzzi sagði: gleymið Reggio, ykkar umhverfi er það sem þið eigið að standa vörð um. Í leikskólunum er lögð áhersla á að kynna börnunum hið liðna til að flétta inn í núið og byggja frámtíð. Hafa þarf fæturna fasta á jörðinni og höfuðið í hugmyndafluginu. Guðrún Alda lítur svo á að í Reggio sé mikil áhersla lögð á að leikskólar efli sjálfsvitund, söguvitund, grenndarvitund og umhverfisvitund. Hún vísar hér í bókina Líf í Eyjafirði sem ritstýrð var af Braga Guðmundssyni. Er leikskólastarfið í Reggio listnám eða lífsýn? Í leikskólanum er áherslan á listgreinar og samtöl, „heimspeki“. Markmið leikskólastafsins er þó ekki að börnin verði listamenn, tilgangurinn er öllu heldur að listin sé mótvægi við orðið og veiti fleiri túlkanir á upplifanir barnanna. Áherslan er á túlkun barnanna, meðal annars með samtölum þeirra í milli og milli barna og fullorðinna - myndir spretta úr málinu og málið sprettur úr myndum. Í dag er listasmiðja í hverjum leikskóla. Smiðjan skapar svæði til að vinna með börnunum. Hlutverk hennar er annarsvegar að veita börnum tækifæri til að kynnast mismunandi efnivið og tækni og hinsvegar að hjálpa fullorðnum að skilja námsferli barna - hvernig börn læra. Listgreinar og leikur eru helstu kennslutækin í leikskólanum, efniviðurinn er fyrst og fremst notaður til að túlka. Listasmiðjan er vitsmunalegur staður í leikskólanum. Malaguzzi sagði um smiðjurnar „að þær væru baldnar og færu ekki troðnar slóðir, þeim væri heldur ekki ætlað það“. Hann taldi markvissa þjálfun sjónar mikilvæga í uppeldi og menntun, slík þjálfun bjargar ekki aðeins barninu frá því að verða þröngsýnn og sljór neytandi, heldur leiði hún einnig til lifandi og skapandi hugsunar. Teikningin er tæki til að þjálfa augað og til að örva athyglisgáfuna , hugmyndaflugið og ímyndunaraflið. Sjónrænt og myndrænt mál auðveldar leikskólabörnum skilning á umheiminum. Leikskólauppeldi í anda Reggio er ekki listnám. Er það lífsýn? Já það fjallar um sýn, viðhorf til barna, náms, hæfileika og rétt einstaklinga. Malaguzzi lítur á uppeldisfræði sem lifandi hugmyndafræði sem fái kraft frá börnunum og sé í tengslum við raunveruleikann. Hann álítur að í Reggiostarfinu felist sífelldar vangaveltur. Uppeldisfræði verður að breytast annars deyr hún. Ein leið til að reyna að skilja hvernig starfað er í leikskólunum í Reggio er að skoða hvernig þar er litið á barn og þekkingu. Þar er horft á sérhvert barn sem einstakt og að það sjálft sé aðalpersónan hvað varðar eigin vöxt og þroska. Í Aðalnámskrá leikskóla er skýrt tekið fram að leikskólinn skuli taka tillit til þroska og þarfa hvers barns. Er möguleiki á því? Hvað með skipulagið tekur það tillit til hvers barns? Hver stendur vörð um réttindi barnanna? Veröld barna. Það vill brenna við að fullorðnir horfi á börn útfrá eigin sjónarhóli, hagsmunum og bernsku. Í Reggio segja kennarar að ef maður vill kynnast börnum þá verður maður líka að kynnast veröld þeirra. Við getum ekki litið á barn nútímans eins og barn fortíðar. Finnskur heilasérfæðingur Bergström að nafni segir: „að til þess að fullorðnir geti skilið sjónarhorn barna, verði þeir að horfa/hlusta opið og spyrjandi á þau“, hann bendir á að best sé að horfa líkt og horft væri á aðra dýrategund - barnategund. Guðrún Alda rifjar upp gamla tíð í leikskólanum þegar bannað var að koma með barbí, dúkkulísur, súperman. Nú telur hún að barn geti haft þörf fyrir að hafa hlut með sér að heiman sem öryggi. Ef við lokum á að barn komi með dót að heiman erum við að loka á heim barnsins. Dótadagar æsa og hrella frakar en gleðja. Lífsýn kennarans er nátengd vinnubrögðum hans - ekki síst sýn hans á nám barna. Hvernig er litið á nám barna? Í Reggio er litið á þekkingu og nám í heild - heildarsýn á nám, það er að allt tengist og vinnur hvert með öðru. Skólinn má því ekki einangrast í samfélaginu, heldur vinna í nánum tengslum við það. Uppeldisstarfið verður að snúa útávið jafnt sem innávið. Maðurinn þarf að vera tengdur því samfélagi sem hann lifir í sterkum böndum. Skólinn vinnur að því að skapa samfélag sem hefur not af virkni barna. Samafélag sem nýtir hugrekki þeirra, frásagnarhæfileika, gleði þeirra, jákvæðni og orku. Hugmyndum barna verður að koma á framfæri víða en bara í leikskólanum. Í Reggio er litið á menntun sem rannsókn. Barnið nálgast viðfangsefnið á fjölbreytilegan hátt, notar fjölbreyttan efnivið og tækni í nálgun sinni. það setur fram vangaveltur, tilgátur og vinnur síðan að því að túlka og komast að niðurstöðum. Börn taka virkan þátt í að fanga og túlka. Nám er ánægjuleg reynsla, að skilja, er að vilja nota reynslu sína til landvinninga. Það sem einkennir starf kennara í Reggio er hvað þeir rökræða við börnin, jafnvel mjög ung börn, og þá virðingu sem þeir sýna hugmyndum og verkum þeirra. Eitt af hlutverkum kennarans er að hlusta og reyna að sjá hvaða stefnu barnið tekur þegar það tileinkar sér þekkingu, að styðja barnið í þeirri stefnu sem það tekur. Hlutverk barnsins er að vera „áttavitinn“ - þá á kennarinn ekki að fylgja barninu eftir, heldur við hlið þess, varpa fram spurningum sem fær barnið til að setja hugsanir sínar í orð. Kennarinn er skrefi framar og samkvæmt Vygotsky er mikilvægt að aðstoða barnið með það í huga að það sem barnið getur með aðstoð í dag getur það hjálparlaust á morgun. Bjóða barninu verkefni sem er einu stigi fyrir ofan getu þess. Í samskiptum kennara og nemenda er einblínt á verkið sjálft, frekar en venju, afköst barnsins eða bóklega þekkingu. Hugmyndir kennara og nemenda mætast og byggja á áhuga beggja. Samskiptin snúast um að takast á við verkefnið. Samkvæmt lýðræði eiga börn rétt á að vera aðalpersónur eða viðfang, um einstaklingsleg, lagaleg og félagsleg réttindi. Þau eiga rétt á að bera og skapa eigin menningu. Þau eiga rétt á að vera viðurkennd sem virkir þátttakendur í að skapa eigin sjálfsmynd, sjálfstæði og hæfni. Hér er meira um Vygotsky Foreldrar og þátttaka þeirra eru talin óaðskiljanlegir þættir í skólastarfinu í Reggio. Foreldrarnir stofnuðu og ráku skólana fyrstu árin - þar með var foreldratengingin mikilvæg. Kennararnir leggja áherslu á að:
Öflugt foreldrastarf er heillandi þáttur í Reggiostarfinu, margir eru þó á mikilli hraðferð í gegnum lífið, líkt og hér á Íslandi. Í Reggio er litið á það sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut að foreldrar séu með í skipulagninu skólans, enda sitja þeir í leikskólaráði sem stjórnar leikskólanum. Hvað gerir leikskólaráð á Íslandi? sjá Aðalnámskrá. Kennararnir nota meðal annars skráningu til að upplýsa foreldrana um starfið í leikskólanum. Uppeldisfræðileg skráning er aðferð til gagnaöflunar. Slík skráning er ekki atferlisathugun. Hún er fyrst og fremst aðferð til að auka skilning okkar á því sem er að gerast innan veggja skólans. Sýna hvað barnið er hæfileikaríkt og getumikið án þess að meta það við fyrirframgefna staðla. Aðferðin felur alltaf í sér bæði skráningu og innihald. Innihald er það sem haft er eftir börnunum, það sem þau segja, gera, verkin þeirra og hvernig við tengjumst verkunum. Ferli lýsir því hvernig við notum innihaldið til að íhuga eigið starf á kerfisbundinn hátt. Skráningaferlið getur gert innra starfið sýnilegt. Það getur einnig gefið kennurum upplýsingar um hvernig þeir eru í starfi og um leið geta þær svarað spurningum hvað barn kann, hvernig það hugsar, hvernig það lærir og þannig verið verkfæri til að breyta skólastarfinu. Skráning er ekki síst góður grunnur að uppeldislegri umræðu svo eitthvað sé nefnt. Kennari horfir fyrst á barnið og leitar síðan til kenninga. Hann spyr sig spurninga: Hvað er barn að hugsa, hvernig lærir barn, hvers konar kenningu býr það yfir, hvernig get ég nýtt mér þá kenningu? Ábyrgð kennarans er að fá innblástur frá forvitni barna og spurningum þeirra. Áhersla er lögð á að halda spurningum barna á lofti og að athuga hvernig þau leita svara við spurningum sínum. Kennarinn þarf að hafa vald á listinni að hlusta og spyrja. Að hlusta er list, þarna er átt við virka hlustun en ekki óvirka hlustun - jákvæða móttöku. Kennari sem lítur á fjölbreytilega sem kost í kennslu fer að einblína meira á styrk barnsins og vinna þannig á veikleika þess. Hvenig er uppeldisfræðileg skráning gerð? Hægt er að gera hana með því að:
Kennarinn velur vettvang og aðstæður, þetta getur verið samtal tveggja barna, samræður í hóp, eitt barn fiskað úr til að fylgjast með. Enn ein viðbótin er tími í skipulaginu til að gera þetta. Íslenskur leikskólakennari svaraði tímaspursmáli á þá leið: þegar maður hættir að vera þjónn barnanna og fer að leyfa þeim sjálfum að vinna og leysa vandamál, þá skapast ótrúlega mikill tími sem nýtist til að skrá. Kennari skráir á vettvangi en þegar hann hreinskrifar þá sér hann skráninguna betur, athugar hana og túlkar. Hvernig er leikskólastarf í Reggio öðruvísi en í öðrum leikskólum.
Um flutning vinnubragða milli landa segja kennarar í Reggio. Hér er engan veginn um fullkomið leikskólastarf að ræða. Við í Reggio viljum sjá samstarf meðal kennara, það að fá hugmyndir frá hvorum öðrum og vinna síðan með þær á aðstæðubundinn hátt í hverju landi fyrir sig.
|